Draumur Færeyinga um annað Evrópuævintýri á lífi

Páll Klettskarð skoraði fyrir KÍ Klaksvík í kvöld.
Páll Klettskarð skoraði fyrir KÍ Klaksvík í kvöld. Ljósmynd/ki.fo

Færeyska liðið KÍ Klaksvík lagði Borac Banja Luka frá Bosníu og Hersegóvínu að velli, 2:1, þegar liðin áttust við í fyrri leik þeirra í 3. umferð undankeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu karla í kvöld.

Klaksvík stóð sig frábærlega í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu á síðasta tímabili og færist nú skrefi nær því að spila í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

Í kvöld skoraði Páll Klettskarð eftir aðeins tíu mínútna leik áður en Mark Jensen skoraði sjálfsmark og jafnaði metin fyir gestina eftir rúmlega hálftíma leik.

Skömmu síðar, á 33. mínútu, fékk Sebastian Herrera beint rautt spjald í liði Borac og léku Færeyingarnir því einum fleiri það sem eftir lifði leiks.

Norðmaðurinn Kristoffer Ödemarksbakken tryggði Klaksvík svo sigurinn á 36. mínútu og fara Færeyingarnir því með naumt forskot til Bosníu fyrir síðari leikinn í næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert