Lið Svartfjallalands, sem mætir Íslandi í Þjóðadeild karla í fótbolta á Laugardalsvellinum á föstudagskvöldið, hefur orðið fyrir miklu áfalli.
Reyndasti varnarmaður liðsins, Stefan Savic, glímir við meiðsli og staðfest var í dag að hann færi ekki með liðinu til Íslands.
Vonir eru bundnar við að hann nái að jafna sig á meðan félagar hans fara til Íslands og geti tekið þátt í leik Svartfellinga gegn Wales á mánudaginn kemur.
Savic er burðarás í liði Svartfjallalands en hann er 33 ára miðvörður sem leikur með Trabzonspor í Tyrklandi, spilaði með Atlético Madrid í níu ár og þar á undan með Fiorentina og Manchester City. Hann hefur leikið 73 landsleiki fyrir Svartfjallaland og skorað í þeim níu mörk.