Þýskaland valtaði yfir Ungverjaland, 5:0, í 3. riðli A-deildar Þjóðadeildar karla í knattspyrnu í Þýskalandi í kvöld.
Niclas Füllkrug, framherji West Ham, kom Þjóðverjum yfir á 27. mínútu eftir stoðsendingu frá Jamal Musiala. Staðan 1:0, Þýskalandi í vil í hálfleik.
Musiala skoraði annað mark Þýskalands á 57. mínútu eftir undirbúning frá Florian Wirtz. Níu mínútum síðar skoraði Wirtz eftir undirbúning frá Musiala.
Varamaðurinn Aleksandar Pavlovic skoraði fjórða mark Þýskalands á 77. mínútu eftir sendingu frá Musiala. Þriðja stoðsending Musiala í leiknum.
Kai Havertz setti síðasta nagla í kistu Ungverja á 81. mínútu með marki úr vítaspyrnu. Mörkin urðu ekki fleiri og 5:0 sigur Þjóðverja staðreynd.
Holland vann 5:2 sigur á Bosníu í sama riðli í Hollandi í kvöld.
Joshua Zirkzee kom Hollendingum yfir á 13. mínútu í sínum fyrsta byrjunarliðsleik með landsliðinu. Ermedin Demirovic jafnaði metin fyrir Bosníu á 27. mínútu.
Tijjani Reijnders kom Hollandi í 2:1 á annarri mínútu í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Staðan í hálfleik, 2:1 fyrir Hollandi.
Cody Gakpo skoraði þriðja mark Hollendinga á 56. mínútu. Gamli markahrókurinn Edin Dzeko minnkaði muninn á 73. mínútu, 3:2.
Hinn ólseigi Wout Weghorst kom Hollandi í 4:2 á 88. mínútu. Á annarri mínútu í uppbótartíma gulltryggði Xavi Simons sigur Hollendinga með marki. Lokaniðurstöður, 5:2 sigur Hollands.