Virgil van Dijk, fyrirliði hollenska landsliðsins í knattspyrnu og Liverpool, segir að hann sé enn að bæta sig sem leikmaður og stefnir fullum fetum á heimsmeistaramótið 2026.
Van Dijk sagði þetta við fréttamenn eftir leik Hollands gegn Bosníu í Þjóðadeildinni í gærkvöld en hollenska liðið vann þar öruggan sigur, 5:2. Það var 75. landsleikur miðvarðarins sem þykir einn sterkasti varnarmaður heims en hann er 33 ára gamall.
„Já, ég vil komast á eitt heimsmeistaramót í viðbót, ég veit að ég er enn meira en nógu góður til þess. Ég er fyrirliði Liverpool, hef náð að halda stöðugleika, og er í frábæru líkamlegu formi. Þá finnst mér ég vera enn að bæta mig í boltameðferðinni," sagði van Dijk þegar hann var spurður út í framhaldið hjá sér á þessum tímamótum.