Vandræði Bandaríkjamanna halda áfram

Jonathan David, samherji Hákons Arnars Haraldssonar hjá Lille í Frakklandi, …
Jonathan David, samherji Hákons Arnars Haraldssonar hjá Lille í Frakklandi, var í aðalhlutverki hjá Kanada í nótt. AFP/Ozan Kose

Vandræði bandaríska karlalandsliðsins í knattspyrnu héldu áfram í nótt þegar það tapaði fyrir Kanada á heimavelli í vináttulandsleik í Kansas City, 2:1.

Bandaríkjunum gekk illa í Ameríkubikarnum á heimavelli í sumar og náði sér ekki á strik gegn grönnum sínum en þjóðirnar halda heimsmeistaramótið 2026 sameiginlega, ásamt Mexíkó. Þar tapaði liðið bæði fyrir Panama og Úrúgvæ og féll út strax eftir riðlakeppnina.

Fyrr á árinu tapaði bandaríska liðið 5:1 fyrir Kólumbíu í vináttulandsleik og einnig fyrir Slóveníu á heimavelli.

Jonathan David var í aðalhlutverki í kanadíska liðinu en hann lagði upp mark fyrir Jacob Shaffelburg á 17. mínútu og kom svo Kanada í 2:0 á 58. mínútu.

Luca de la Torre minnkaði muninn fyrir Bandaríkin á 66. mínútu og þar við sat.

Þriðju HM-gestgjafarnir, Mexíkóar, unnu öruggan sigur á Nýja-Sjálandi í nótt, 3:0, en leikið var í Pasadena í Kaliforníu. Orbelin Pineda, Cesar Huerta og Luis Romo skoruðu mörkin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert