Séamus Coleman, fyrirliði írska landsliðsins í knattspyrnu og Everton í ensku úrvalsdeildinni, hefur neyðst til að draga sig úr landsliðshópnum vegna meiðsla sem hann varð fyrir í 2:0-tapi fyrir Englandi í B-deild Þjóðadeildar Evrópu á laugardag.
Um fyrsta leik Írlands undir stjórn Heimis Hallgrímssonar var að ræða. Coleman var í byrjunarliðinu en fór meiddur af velli í síðari hálfleik.
Þar með missir hann af leik Írlands gegn Grikklandi í annarri umferð 2. riðils B-deildarinnar annað kvöld.
Heimir hefur kallað inn Festy Ebosele, leikmann Watford í ensku B-deildinni, í stað Colemans.