Haaland hetja Noregs – Sesko með þrennu

Erling Haaland fagnar marki í leik með Noregi.
Erling Haaland fagnar marki í leik með Noregi. AFP/Jewel Samad

Erling Haaland reyndist hetja Noregs þegar liðið lagði Austurríki að velli, 2:1, í 3. riðli B-deildar Þjóðadeildar Evrópu í knattspyrnu í Ósló í kvöld.

Sigurmark Haalands kom á 80. mínútu. Felix Myhre hafði komið Noregi í forystu snemma leiks áður en Marcel Sabitzer jafnaði metin fyrir Austurríki áður en fyrri hálfleikur var úti.

Haaland hefur nú skorað 32 mörk í 34 A-landsleikjum fyrir Noreg og er aðeins einu marki frá því að jafna markamet Jörgen Juve sem hefur staðið í 90 ár, frá árinu 1934.

Í hinum leik riðilsins mættust Slóvenía og Kasakstan. Slóvenía tryggði sér 3:0-sigur þar sem Benjamin Sesko skoraði þrennu fyrir heimamenn.

Slóvenía er þar með á toppnum með fjögur stig líkt og Noregur en Austurríki og Kasakstan koma þar á eftir með eitt stig hvort.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert