Bellamy blautur og ánægður

Bellamy eftir sigur Wales á Tyrkjum í Cardiff á föstudaginn.
Bellamy eftir sigur Wales á Tyrkjum í Cardiff á föstudaginn. AFP/Henry Nicholls

Landsliðsþjálfari Wales í fótbolta, Craig Bellamy, var hæstánægður með sigur sinna manna við afar krefjandi aðstæður þegar liðið heimsótti Svartfellinga í riðli Íslands í Þjóðadeild Evrópu. Wales hafði betur, 2:1.

Úrhellisrigning varð til þess að þjóðarleikvangur Svartfellinga var óleikhæfur og flytja þurfti leikinn til borgarinnar Niksic. Völlurinn sem leikið var á var afar blautur og sleipur en Wales skoraði tvö mörk á fyrstu þremur mínútum leiksins og landaði góðum sigri.

Bellamy kallaði aðstæðurnar „óboðlegar“ að leik loknum en hrósaði liði sínu í hástert. „Ég er stoltur af liðinu. Þetta eru erfiðustu aðstæður sem ég hef séð. Það var ómögulegt að spila fótbolta og ég gat varla staðið á hliðarlínunni“, sagði Bellamy í leikslok.

Harry Wilson og Kieffer Moore skoruðu mörk Wales en Wales heimsækir Ísland í næstu umferð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert