Þrátt fyrir að tæp 17 ár séu frá því að Craig Bellamy réðst á þáverandi liðsfélaga sinn hjá Liverpool John Arne Riise með golfkylfu hefur sá norski ekki gleymt árásinni.
Riise ræddi atvikið við Nettavisen í heimalandinu, en það fékk mikla athygli í enskum fjölmiðlum á sínum tíma.
„Ég hef ekkert á móti honum. Hann gerði vel með Vincent Kompany hjá Burnley og það er fínt en ég vil ekki hafa hann í lífinu mínu.
Ég er búinn að fyrirgefa honum en ekki gleyma atvikinu því hann fór langt yfir strikið,“ sagði Riise.
Bellamy fékk háa fjársekt frá Liverpool fyrir atvikið, en það stöðvaði hann ekki í að fagna næsta marki með því að þykjast slá golfkúlu (eða Riise) með kylfu.
Bellamy útskýrði sína hlið á málinu í Overlap-hlaðvarpinu. Samkvæmt honum hafði Riise svindlað er þeir spiluðu golf saman. Þegar Bellamy var orðinn ölvaður sama kvöld réðst hann svo á þann norska.