Hreinasta helvíti að spila með Mbappé

Kylian Mbappé.
Kylian Mbappé. AFP/Sergei Gapon

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Neymar var lítt hrifinn af því að spila með franska sóknarmanninum Kylian Mbappé hjá Frakklandsmeisturum París SG.

Það er franski fjölmiðlamaðurinn Cyril Hanouna sem greinir frá þessu en Neymar og Mbappé léku saman hjá París SG í fimm ár.

Mbappé gekk til liðs við Real Madrid í sumar á frjálsri sölu og á Neymar að hafa varað brasilíska liðsfélaga Mbappés við honum.

Allt góðir vinir Neymars

„Brasilíski leikmennirnir hjá Real Madrid eru allir góðir vinir Neymars,“ sagði Hanouna í samtali við franska fjölmiðilinn Europe 1.

„Það hefur alltaf geisað ákveðið stríð á milli þeirra Neymars og Mbappés. Neymar lét leikmenn Real Madrid meðal annars vita af því að það hefði verið hreinasta helvíti að spila með Mbappé,“ bætti franski fjölmiðlamaðurinn við.

Mbappé, sem er 25 ára gamall, hefur skorað þrjú mörk í fyrstu fimm leikjum sínum fyrir Real Madrid í spænsku 1. deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert