Bayern skoraði níu – Real byrjar vel

Harry Kane skoraði fjögur mörk.
Harry Kane skoraði fjögur mörk. AFP/Alexandra Beier

Þýska stórliðið Bayern München gerði sér lítið fyrir og vann Dinamo Zagreb frá Króatíu með sjö marka mun, 9:2, á heimavelli í 1. umferð í deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í kvöld.

Harry Kane skoraði fjögur mörk fyrir Bayern og komu þrjú þeirra af vítapunktinum. Michael Olise gerði tvö mörk og þeir Raphaël Guerreiro, Leroy Sané og Leon Goretzka komust einnig á blað.

Ríkjandi Evrópumeistararnir í Real Madrid höfðu betur gegn þýska liðinu Stuttgart á heimavelli sínum í spænsku höfuðborginni.

Kylian Mbappé kom Real yfir í upphafi seinni hálfleiks en Deniz Undav jafnaði fyrir Stuttgart á 68. mínútu. Varnarmaðurinn Antonio Rüdiger kom Real aftur yfir á 83. mínútu og Endrick innsiglaði sigurinn með marki í uppbótartíma.

Þá vann portúgalska liðið Sporting sigur á Lille frá Frakklandi, 2:0, á heimavelli. Viktor Gyökeres og Zeno Debast gerðu mörk Sporting. Angel Gomes hjá Lille fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt á 40. mínútu.

Hákon Arnar Haraldsson lék ekki með Lille vegna meiðsla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert