Fullkomið tímabil Rosengård í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta hélt áfram er liðið lagði Piteå á útivelli, 1:0, í kvöld. Rosengård hefur unnið alla 21 leikinn í deildinni til þessa.
Japanska landsliðskonan Momoko Tanikawa skoraði sigurmarkið á 29. mínútu. Guðrún Arnardóttir lék allan leikinn að vanda.
Liðið er með 63 stig, 14 stigum meira en Häcken í öðru sæti. Guðrún og stöllur geta tryggt sér sænska meistaratitilinn með sigri á Kristianstad næstkomandi sunnudag.
Häcken vann Íslendingaliðið Växjö, 4:0. Bryndís Arna Níelsdóttir lék allan leikinn með Växjö. Þórdís Elva Ágústsdóttir kom inn á hjá liðinu á 71. mínútu. Växjö er í 9. sæti með 25 stig.
Örebro mátti þola tap á útivelli gegn Hammarby, 2:0. Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir lék allan leikinn með Örebro og Katla María Þórðardóttir fram að uppbótartíma. Örebro er í 12. sæti af 14 liðum og í miklum fallslag.