Manolis Siopsis, miðjumaður gríska landsliðsins í knattspyrnu, sagði tilfinningarnar hafa borið sig ofurliði þegar liðið skoraði annað mark sitt í 2:0-sigri á Írlandi í B-deild Þjóðadeildar Evrópu í gærkvöldi.
Grísk og ensk knattspyrna er í sárum eftir sviplegt fráfall Georges Baldocks, grísks landsliðsmanns sem drukknaði í sundlaug á heimili sínu í Aþenu, í síðustu viku.
Baldock fæddist og ólst upp á Englandi en þar sem amma hans var frá Grikklandi gat hann skipt um ríkisfang og hóf að leika með Grikkjum árið 2022.
„Það hefur margt gerst undanfarna daga, við erum orðnir enn nánari hverjum öðrum og tilfinningarnar eru óendanlegar. Persónulega þá settist ég einsamall niður á miðjunni og fór að gráta um leið og við skoruðum annað markið.
Ég settist niður og sá fyrir mér glefsur af augnablikum sem við upplifðum með George og svo hurfu þau á augabragði,“ sagði Siopsis í samtali við gríska íþróttamiðilinn Sport24.
Um helgina var Baldock minnst víða í neðri deildum Englands, þar sem hann lék stóran hluta ferilsins. Alls urðu A-landsleikirnir fyrir Grikkland tólf.
Lék Baldock eitt sumar með ÍBV í úrvalsdeildinni hér á landi, sumarið 2012, þegar hann var aðeins 19 ára gamall. Eftir lánsdvölina varð bakvörðurinn lykilmaður hjá MK Dons og í kjölfarið Sheffield United.