Knattspyrnuþjálfarinn Þorlákur Árnason tók við karlaliði ÍBV í síðustu viku og gerði þriggja ára samning við félagið. Hann sagði upp störfum hjá Damaiense í Portúgal stuttu á undan.
Fáir Íslendingar vissu hvaða félag Damaiense var þegar Þorlákur tók við kvennaliði þess í október á síðasta ári. Hann kunni vel við sig í Portúgal, þar sem árangurinn var góður í sterkri portúgalskri deild.
„Það var mjög skemmtilegt verkefni. Þetta er lítill klúbbur en gengið var mjög gott. Við enduðum í fjórða sæti, sem er besti árangurinn í sögu félagsins. Það var mjög spennandi að vera þar og í skemmtilegri deild,“ sagði Þorlákur og hélt áfram:
„Almennt eru þetta þrjú stórlið: Benfica, Braga og Sporting. Hin liðin eru í smá vandræðum með að verða atvinnumannalið og það mótar deildina þegar það eru þrjú lið í yfirburðastöðu.
Þau geta millifært á sig úr karlaboltanum á meðan hin liðin berjast í bökkum. Annars er þetta spennandi og skemmtileg deild og fótboltamenningin í Portúgal er æðisleg,“ sagði Þorlákur.
Nánar er rætt við Þorlák í Morgunblaðinu sem kemur út í fyrramálið.