Diljá um fjarsambandið: „Endalaust púsluspil“

Fótboltaparið Valgeir Lunddal Friðriksson og Diljá Ýr Zomers.
Fótboltaparið Valgeir Lunddal Friðriksson og Diljá Ýr Zomers. mbl.is/Eggert

Knattspyrnukonan Diljá Ýr Zomers er í lykilhlutverki hjá toppliði OH Leuven í efstu deild Belgíu en hún hefur skorað þrjú mörk í sjö deildarleikjum á tímabilinu.

Þá var hún markahæsti leikmaður deildarinnar á síðustu leiktíð með 23 mörk í 27 leikjum þegar OH Leuven hafnaði í 3. sæti deildarinnar og tapaði í bikarúrslitum fyrir Club Brugge í vítakeppni.

OH Leuven trónir á toppi deildarinnar í ár með 19 stig eftir fyrstu átta umferðirnar en liðið er með þriggja stiga forskot á Anderlecht sem er í öðru sætinu með 16 stig.

Þarft að grípa tækifærið

Diljá gekk til liðs við belgíska félagið síðasta sumar og er á sínu öðru tímabili í Belgíu en hún er í sambandi með Valgeiri Lunddal Friðrikssyni, landsliðsmanni Íslands í knattspyrnu og leikmanni Düsseldorf í Þýskalandi.

„Þetta er endalaust púsluspil,“ sagði Diljá í samtali við mbl.is þegar hún var spurð út í fjarsambandið.

„Þetta er mun betra núna en þegar hann var í Svíþjóð og við náum að hittast einu sinni í viku sirka. Október og nóvember voru erfiðir mánuðir. Hann var í landsliðsverkefni og svo fór ég í landsliðsverkefni og við erum bæði búin að vera á miklu flakki. Það er orðið aðeins rólegra hjá okkur núna sem hjálpar mikið. 

Við vorum til dæmis mjög spennt að mæta á leiki hjá hvort á öðru en það hittir nánast alltaf þannig á að við erum að spila nánast á sömu dögum. Þú þarft að vera duglegur að grípa þau tækifæri sem gefast,“ sagði Diljá Ýr.

Óvíst með framhaldið

Samningur Diljáar rennur út eftir tímabilið og er óvíst hvað tekur við hjá henni næsta sumar.

„Ég veit ekki hvað maður má segja mikið en ég er alveg byrjuð að hugsa og horfa aðeins í kringum mig. Ég er með umboðsmann sem er að vinn í þessu fyrir mig og á meðan einbeiti ég mér að því að spila og standa mig vel fyrir OH Leuven. Við þurfum aðeins og bíða og sjá hvað verður en draumastaðan væri að sjálfsögðu að komast til Þýskalands,“ bætti Diljá við í samtali við mbl.is.

Ítarlegt viðtal við Diljá Ýr má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert