Stuðningsmaður Sheffield Wednesday varð sér til skammar þegar hann gerði gys að andláti Georges Baldocks, fyrrverandi leikmanns Sheffield United, þegar liðin mættust í grannaslag í ensku B-deildinni í knattspyrnu um helgina.
Þegar stuðningsmenn liðanna voru að rífast á meðan leik stóð á Bramall Lane, heimavelli Sheffield United, hélt stuðningsmaður Sheffield Wednesday á símanum sínum þar sem stóð stórum stöfum: „Hvar er Baldock?“
Baldock féll sem kunnugt er frá í síðasta mánuði þegar hann drukknaði í sundlaug á heimili sínu í Aþenu. Hann lék með Sheffield United um sjö ára skeið og með ÍBV sumarið 2012 að láni frá MK Dons.
Maðurinn sem hélt símanum uppi með skilaboðunum heitir Brandon Petryc og hefur Sheffield Wednesday staðfest að félagið vinni nú með lögreglunni í Suðurjórvíkurskíri að rannsókn á málinu.