Knattspyrnumaðurinn Orri Steinn Óskarsson er í 38. sæti yfir verðmætustu leikmenn heims, 21 árs og yngri, hjá CIES Football Observatory, knattspyrnuvefs sem sérhæfir sig í rannsóknum tengdum fótboltaheiminum.
Orri Steinn, sem er tvítugur, er sjötti verðmætasti framherji heims í dag en íslenski framherjinn var verðmetinn á 15,2 milljónir evra í sumar þegar hann var meðal annars orðaður við Englandsmeistara Manchester City.
Framherjinn gekk til liðs við Real Sociedad á Spáni frá FC Köbenhavn fyrir 20 milljónir evra í haust en hann er verðmetinn á 36 milljónir evra í dag, það samsvarar um 5,3 milljörðum íslenskra króna.
Evrópumeistarinn Lamine Yamal, sóknarmaður Barcelona, er í efsta sæti listans en hann er verðmetinn á 180 milljónir evra. Alejandro Garnacho, sóknarmaður Manchester United, er í öðru sætinu en hann er verðmetinn á 115 milljónir evra. Í þriðja sæti er svo Warren Zaire-Emery, miðjumaður París SG sem er metinn á 109 milljónir evra.
Af framherjum á listanum er Endrick, framherji Real Madrid, verðmætastur en hann er metinn á 98 milljónir evra. Jhon Durán, framherji Aston Villa, er verðmetinn á 70 milljónir evra og Evan Ferguson, framherji Brighton, er metinn á 61 milljón evra.