Spænski knattspyrnumaðurinn Sergio Ramos er ekki að snúa aftur til Real Madrid, þrátt fyrir meiðslavandræði félagsins.
Það er Sportsmail sem greinir frá þessu en Eder Militao, miðvörður liðsins, sleit krossband á dögunum og leikur því ekki meira með liðinu á tímabilinu.
Bakvörðurinn Dani Carvajal er einnig með slitið krossband og missir af restinni af tímabilinu og þá hefur austurríski miðvörðurinn David Alaba verið frá keppni síðan í desember á síðasta ári eftir að hafa rifið vöðva aftan í læri.
Real Madrid er því ansi fáliðað í öftustu víglínu og hefur Ramos verið orðaður við endurkomu til félagsins í spænskum fjölmiðlum að undanförnu en hann er án félags eftir að samningur hans við Sevilla rann út síðasta sumar.
Ramos er í guðatölu í Madríd en hann lék 671 leik fyrir félagið á árunum 2005 til ársins 2021. Hann varð fimm sinnum Spánarmeistari með liðinu og fjórum sinnum Evrópumeistari.