Noregur og Svíþjóð á EM – fyrsta mót Póllands

Caroline Graham Hansen skoraði fyrir norska liðið.
Caroline Graham Hansen skoraði fyrir norska liðið. AFP/Saeed Khan

Noregur og Svíþjóð tryggðu sér í kvöld sæti á lokamóti EM kvenna í fótbolta eftir sigra í seinni leikjum umspilsins.

Noregur vann sannfærandi heimasigur á Norður-Írlandi, 3:0. Norska liðið vann fyrri leikinn 4:0 og einvígið samanlagt 7:0. Caroline Hansen, Frida Maanum og Synne Jensen gerðu mörk norska liðsins.

Svíþjóð gerði gott betur og vann 6:0-heimasigur á Serbíu. Svíþjóð vann fyrri leikinn 2:0 og einvígið samanlagt 8:0.

Fridolina Rolfö og Stina Blackstenius fagna.
Fridolina Rolfö og Stina Blackstenius fagna. AFP

Stina Blackstenius skoraði tvö mörk fyrir Svíþjóð og þær Filippa Angeldahl, Kosovare Asllani, Hanna Bennison og Anna Anvegard komust einnig á blað.

Pólland er á leiðinni á sitt fyrsta lokamót eftir útisigur á Austurríki, 1:0. Ewa Pajor skoraði sigurmarkið á fjórðu mínútu uppbótartímans. Pólland vann fyrri leikinn 1:0 og einvígið 2:0.

Þá tryggðu Portúgal og Finnland sér einnig sæti á lokamótinu, sem fram fer í Sviss næsta sumar. Portúgal sigraði Tékkland og Finnland hafði betur gegn Skotlandi.

Loks eru Belgía og Wales einnig komin áfram. Belgía sló út Úkraínu og Wales hafði betur gegn grönnum sínum í Írlandi. 

Ísland hefur þegar tryggt sér sæti á lokamótinu eftir gott gengi í undankeppninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert