Framherjinn Daníel Tristan Gudjohnsen hefur framlengt samning sinn við sænska knattspyrnufélagið Malmö.
Hann skrifaði undir nýjan fjögurra ára samning í dag en hann kom til félagsins í apríl árið 2023. Hann var að glíma við meiðsli og gat lítið tekið þátt tímabilið 2023 en sneri aftur í aðalliðið í næst síðustu umferð í deildinni á þessu tímabili og skoraði þrennu í bikarkeppninni á dögunum.
„Það er frábært að skrifa undir nýjan samning við Malmö FF og að félagið hafi trú á mér. Þetta hefur verið erfitt ár fyrir mig andlega vegna meiðsla en núna er ég kominn á fullt aftur og er sterkari.
Ég lærði margt í fjarverunni og það að vera í þessu umhverfi með svo mörgum reyndum leikmönnum er hvetjandi og fræðandi,“ sagði Daníel Tristan í viðtali á heimasíðu liðsins.