Víkingar í átjánda til nítjánda sæti

Liðsfélagar Andra Lucasar Guðjohnsens hjá Gent í Belgíu fagna marki …
Liðsfélagar Andra Lucasar Guðjohnsens hjá Gent í Belgíu fagna marki í kvöld en þeir tryggðu sér öruggt sæti í umspilinu. AFP/Kurt Desplenter

Víkingar eru í átjánda til nítjánda sæti í Sambandsdeild karla í fótbolta eftir að síðustu sjö leikjum fimmtu umferðarinnar lauk í kvöld.

Þeir þurfa líklega eitt stig gegn LASK Linz í lokaumferðinni næsta fimmtudagskvöld til að komast örugglega áfram í umspilið í febrúar en gætu sloppið í gegn þó leikurinn myndi tapast.

Efstu átta liðin fara beint í 16-liða úrslit og liðin í sætum 9 til 24 fara í umspil um hin átta sætin þar.

Gent frá Belgíu komst upp fyrir Víking með því að vinna öruggan sigur á TSC Backa Topola frá Serbíu, 3:0. Gent er komið með 9 stig og fer þar með örugglega áfram í umspilið, og getur slegist um að ná einu af átta efstu sætunum í lokaumferðinni. Andri Lucas Guðjohnsen kom inn á sem varamaður hjá Gent á 83. mínútu.

Grikkirnir í Panathinaikos náðu jafna Víkinga bæði að stigum og markatölu með því að vinna The New Saints í Wales, 2:0, og eru með 7 stig. Sverrir Ingi Ingason lék allan leikinn í vörn Panathinaikos.

Vitoria Guimaraes frá Portúgal skaust upp í annað sæti deildarinnar með 13 stig eftir góðan útisigur  gegn St. Gallen í Sviss, 4:1.

Úrslitin í síðustu sjö leikjum kvöldsins:

Gent - TSC Backa Topola 3:0
Mladá Boleslav - Jagiellonia 1:0
Omonia Nikósía - Rapid Vín 3:1
Pafos - Celje 2:0
Shamrock Rovers - Borac Banja Luka 3:0
St. Gallen - Vitoria Guimaraes 1:4
The New Saints - Panathinaikos 0:2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert