Elías Rafn Ólafsson, markvörður Midtjylland og íslenska landsliðsins, fór meiddur af velli þegar danska liðið tapaði á útivelli fyrir Porto, 2:0, í Evrópudeildinni í knattspyrnu í gær.
Markvörðurinn, sem er 24 ára gamall, lenti í samstuði við Ousmane Diao, varnarmann Midtjylland, og Samu Aghehow, sóknarmann Porto, með þeim afleiðingum að hann meiddist illa á hönd.
Þegar Elías tók af sér hanskana sást að hann var stokkbólginn á vinstri höndinni og óttast forráðamenn danska liðsins að markvörðurinn sé hugsanlega handarbrotinn.
Midtjylland er í 23. sæti Evrópudeildarinnar með 7 stig eftir sex leiki en liðin í 1.-8. sæti fara áfram í 16-liða úrslit keppninnar og liðin í 9.-24. sæti fara í umspil.