Nafn knattspyrnumannsins Arnórs Sigurðssonar er ekki að finna á leikmannalista Blackburn Rovers fyrir síðari hluta tímabilsins í ensku B-deildinni.
Arnór hefur lítið sem ekkert komið við sögu hjá Blackburn á tímabilinu, fyrst vegna veikinda og svo vegna þrálátra meiðsla.
Skila þarf 25 manna leikmannalista til ensku deildakeppninnar áður en tímabilið hefst og aftur eftir að félagaskiptaglugganum í janúar er lokað, en þá gefst félögum færi á að uppfæra listann með nýjum leikmönnum og afskrá aðra.
Skagamaðurinn er ekki á meðal leikmannanna 25 og spilar því ekki meira með Blackburn á tímabilinu, nema hann hljóti náð fyrir augum knattspyrnustjórans John Eustace í ensku bikarkeppninni, þar sem Blackburn mætir Wolves á sunnudag.
Samningur Arnórs við Blackburn rennur út í sumar.