Starfsmaður Alþjóða knattspyrnusambandsins FIFA var handtekinn í vikunni, grunaður um að ætla að hitta 14 ára dreng með kynlíf í huga á hóteli í Coral Gables í Flórída í Bandaríkjunum.
Það er The Athletic sem greinir frá þessu en starfsmanninum, Jack Edward Coles, hefur verið sagt upp störfum hjá Alþjóða knattspyrnusambandinu.
Coles, sem er 39 ára gamall, var handtekinn af bandarísku innanríkislögreglunni á skrifstofu FIFA í Coral Gables þar sem Alþjóða knattspyrnusambandið er með höfuðstöðvar sínar í Bandaríkjunum.
Coles komst í kynni við drenginn í gegnum stefnumótaforritið Grindr í október á síðasta ári og reyndi að hitta hann í fyrsta sinn í byrjun febrúarmánaðar.
Drengurinn lét lögregluyfirvöld í Bandaríkjunum vita af fyrirhuguðum fundi þeirra á hótelinu en hann hafði tjáð Coles að hann væri 16 ára gamall.
Coles var verkefnastjóri hjá FIFA og sá meðal annars um alla tónlist á stórviðburðum Alþjóða knattspyrnusambandsins eins og heimsmeistaramótum og heimsmeistaramóti félagsliða.
„Fifa er meðvitað um málsókn sem nú stendur yfir í Bandaríkjunum,“ segir í stuttri yfirlýsingu Alþjóða knattspyrnusambandsins.
„FIFA lítur málið mjög alvarlegum augum og ítrekar að þessi meintu brot tengjast starfi hans hjá FIFA á engan hátt.
Starfsmaðurinn hefur verið leystur frá störfum og FIFA mun ekki tjá sig frekar um málið á þessum tímapunkti,“ segir enn fremur í yfirlýsingunni.