Hinn 16 ára gamli Michael Noonan reyndist hetja írska liðsins Shamrock Rovers í 1:0-sigri á Molde í umspili um sæti í 16-liða úrslitum Sambandsdeildarinnar í fótbolta í Noregi í gærkvöldi.
Um sögulegan sigur var að ræða þar sem írskt félagslið vann í fyrsta sinn leik í útsláttarkeppni í Evrópukeppni. Víkingur úr Reykjavík varð á sama tíma fyrsta íslenska félagsliðið til að afreka það með 2:1-sigri á Panathinaikos í Helsinki.
Noonan varð þá næstyngsti markaskorari í Evrópukeppnum félagsliða frá upphafi. Sóknarmaðurinn var 16 ára og 197 daga þegar hann skoraði í gær.
Einungis Nii Lamptey frá Gana var yngri, 16 ára og 100 daga, þegar hann skoraði fyrir Anderlecht í UEFA-bikarnum, nú Evrópudeildinni, árið 1991.