Knattspyrnumaðurinn Alfons Sampsted er allur að koma til eftir að hafa slitið liðband í ökkla í leik með íslenska landsliðinu gegn Wales í lokaleik liðsins í 4. riðli B-deildar Þjóðadeildarinnar í Cardiff 19. nóvember á síðasta ári.
Alfons, sem er 26 ára gamall, er samningsbundinn Birmingham í ensku C-deildinni en hann gekk til liðs við enska félagið frá Twente í Hollandi síðasta sumar.
Hann hefur lítið spilað með liðinu á yfirstandandi keppnistímabili vegna bæði meiðsla og veikinda en hann hefur komið við sögu í átta deildarleikjum með liðinu og hefur hann komið inn á sem varamaður í þeim öllum. Þá hefur hann leikið sex bikarleiki í þremur keppnum. Þrátt fyrir það er hann fullur eldmóðs og staðráðinn í að hjálpa liðinu að tryggja sér sæti í ensku B-deildinni í vor.
„Loksins er maður heill heilsu og tilbúinn í slaginn,“ sagði Alfons í samtali við Morgunblaðið.
„Síðustu mánuðir hafa verið frekar þungir, andlega, en ég hef æft af fullum krafti undanfarna daga og hlakka mikið til þess að komast aftur inn á völlinn. Ég fór vel af stað í haust, fékk mínútur og var að nálgast byrjunarliðssæti í liðinu. Ég lenti svo í því að fá matareitrun í landsliðsverkefni í október og veikindin héldu mér frá keppni í einhvern tíma.
Ég sleit svo liðband í ökkla í landsliðsglugganum í nóvember og síðast lenti ég í nýrnabólgu. Ég pissaði blóði í nokkra daga, þannig að þetta hefur verið hvert áfallið á fætur öðru. Ég hef því aldrei náð almennilegum takti með liðinu alveg frá því að ég kom og það hefur verið ansi þreytandi,“ sagði Alfons.
Viðtalið við Alfons má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.