Feyenoord sló tíu Milan-menn úr leik

Julián Carranza fagnar sigurmarkinu í einvíginu.
Julián Carranza fagnar sigurmarkinu í einvíginu. AFP/Piero Cruciatti

Hollenska liðið Feyenoord tryggði sér í kvöld sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta með því að gera jafntefli við AC Milan, 1:1, í seinni leik liðanna í umspilinu.

Feyenoord vann fyrri leikinn 1:0 og einvígið samanlagt 2:1. Mætir liðið annaðhvort Inter Mílanó eða Arsenal í 16-liða úrslitunum.

Það stefndi í gott kvöld hjá heimamönnum í Milan því Santiago Giménez kom liðinu yfir strax á 1. mínútu og var staðan í hálfleik 1:0.

Það dró til tíðinda á 51. mínútu þegar franski landsliðsmaðurinn Theo Hernández fékk sitt annað gula spjald, og þar með rautt, fyrir leikaraskap.

Feyenoord nýtti sér liðsmuninn því argentínski sóknarmaðurinn Julián Carranza skaut liðinu áfram með marki á 73. mínútu, ellefu mínútum eftir að hann kom inn á sem varamaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert