Arnór Sigurðsson, landsliðsmaður í fótbolta, kveður enska B-deildarfélagið Blackburn á samfélagsmiðlinum Instagram í dag.
Skagamaðurinn rifti samningi sínum við Blackburn í gær og er á leiðinni til Svíþjóðarmeistara Malmö.
Arnór var mikið frá vegna meiðsla á þeim tveimur árum sem hann var hjá Blackburn og þá var hann ekki í leikmannahópi liðsins fyrir síðustu mánuði tímabilsins og ákvað hann því að róa á önnur mið.
„Það hefur verið mikil ánægja að klæðast Blackburn-treyjunni undanfarin tvö ár og ég vil þakka öllum leikmönnunum og starfsfólki fyrir að láta mér líða eins og ég hafi verið heima hjá mér. Þetta er einstakur hópur.
Ég vildi ekki að endalokin yrðu svona þar sem ég vildi hjálpa liðinu að berjast um að fara upp um deild. Svona er fótboltinn stundum og þú stjórnar ekki öllu. Ég vil þakka öllum stuðningsmönnum fyrir stuðninginn og minningarnar sem ég tek með mér út lífið,“ skrifaði hann.