Brasilíski knattspyrnumaðurinn fyrrverandi Ronaldo hefur ákveðið að draga framboð sitt til baka til forseta brasilíska knattspyrnusambandsins.
Þetta tilkynnti leikmaðurinn sjálfur í samtali við brasilíska fjölmiðla en framherjinn fyrrverandi, sem er 48 ára gamall, tilkynnti um framboð sitt til forseta um miðjan desember á síðasta ári.
„Mín upplifun er sú að aðildarfélögin í Brasilíu sé sátt með núverandi stjórn knattspyrnusambandsins,“ sagði Ronaldo.
„Ef meirihlutinn er sáttur með núverandi stjórnarfyrirkomulag þá skiptir mín skoðun litlu máli,“ bætti Ronaldo við.
Framherjinn lék 98 A-landsleiki fyrir Brasilíu á árunum 1994 til 2011 og skoraði í þeim 62 mörk en hann varð tvívegis heimsmeistari með Braslíu og þá var hann tvívegis valinn besti leikmaður heims.