Fleiri rauð spjöld en mörk í toppslagnum á Ítalíu

Alessandro Bastoni að fá þriðja rauða spjald leiksins undir lok …
Alessandro Bastoni að fá þriðja rauða spjald leiksins undir lok uppbótartímans. AFP/Isabella Bonotto

Inter er með fjögurra stiga forskot á toppi ítölsku A-deildar karla eftir 2:0 sigur á Atalanta á útivelli í kvöld.

Inter er með 64 stig og Napoli er í öðru sæti með 61 stig. Atalanta er svo í þriðja sæti með 58 stig.

Carlos Augusto kom gestunum yfir snemma í fyrri hálfleik með skallamarki eftir hornspyrnu sem Hakan Calhanoglu tók.

Éderson, miðjumaður Atalanta, fékk gult spjald þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum. Hann klappaði kaldhæðnislega fyrir dómaranum sem svaraði með því að gefa honum annað gult spjald og reka hann af velli. 

Lautaro Martinez kom Inter í 2:0 á 87. mínútu og Gian Piero Gasperini, knattspyrnustjóri Atalanta, fékk beint rautt spjald mínútu síðar.

Alessandro Bastoni fékk svo sitt annað gula spjald og því rautt á fimmtu mínútu uppbótartímans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert