Í fangelsi fyrir kókaínsölu – félagið kom af fjöllum

Evan Press.
Evan Press. Ljósmynd/Barry Town

Evan Press, varafyrirliði og miðjumaður Barry Town í velsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, hefur verið dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi eftir að hann játaði að hafa selt kókaín um tæplega þriggja ára skeið.

Press, sem er 24 ára gamall, hefur verið lykilmaður hjá Barry Town frá því hann gekk til liðs við félagið árið 2018 enda spilað 187 leiki og skorað 11 mörk.

Á yfirstandandi tímabili hafði Press spilað alla 33 leiki liðsins og verið fyrirliði í 19 þeirra.

Hann játaði sök fyrir rétti í Newport 11. febrúar síðastliðinn en spilaði þrátt fyrir það þrjá leiki fyrir Barry Town eftir það. Viðurkenndi Press að hafa selt kókaín frá febrúar 2021 til nóvember 2023.

Vissu ekki neitt

Í yfirlýsingu frá félaginu segir að málið hafi komið öllum í opna skjöldu.

Í sannleika sagt bárust okkur ekki fregnir af þessu fyrr en daginn sem hann var dæmdur. Hann hafði aldrei sagt okkur neitt frá þessu.

Okkur var ekki kunnugt um þetta fyrr en hálftíma eftir dómsuppkvaðningu 19. mars þegar fjölskyldumeðlimur setti sig í samband við okkur, sagði talsmaður félagsins í samtali við Wales Online.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert