Hansi Flick, knattspyrnustjóri Barcelona er ósáttur við að þurfa að spila við Osasuna í spænsku 1. deildinni annað kvöld, aðeins 42 klukkustundum eftir að leikmenn hans frá Suður-Ameríku spiluðu í undankeppni HM 2026.
Úrúgvæinn Ronald Araújo og Brasilíumaðurinn Raphinha spiluðu fyrir þjóðir sínar í nótt og ferðast lengi heim á leið í dag.
„Þeir verða ekki með. Flugið er langt og þetta er ekki æskilegustu aðstæðurnar. Þeir þurfa að jafna sig og æfa og svo sjáum við til á sunnudag.“
Barcelona mætir Osasuna í frestuðum leik, sem var frestað vegna skyndilegs fráfalls liðslæknis Barcelona, og þykir Flick allt of stutt síðan leikmenn sínir spiluðu landsleiki. Frenkie de Jong frá Hollandi og Robert Lewandowski frá Póllandi eru þeirra á meðal.
„Þetta eru ekki ákjósanlegar aðstæður fyrir þá. Þeir eru nýbúnir að spila fyrir landslið sín og það er slæmt. Núna þurfum við að spila við Osasuna og við þurfum að ræða hvort þetta sé rétti tímapunkturinn til þess að gera það. Ég er ekki ánægður með þetta.
Aðrar deildir gera þetta öðruvísi. Ég get ekki breytt því. Það er mín persónulega skoðun. En við munum spila, við ætlum ekki að afsaka okkur. Gæði liðsins eru mikil og við getum unnið alla jafnvel þó leikmennirnir fái ekki ákjósanlega hvíld,“ sagði Flick á fréttamannafundi.