Skoski knattspyrnuþjálfarinn Willie Kirk vill ólmur fá annað tækifæri til þess að þjálfa eftir að hafa verið vikið frá störfum sem knattspyrnustjóri kvennaliðs Leicester City fyrir tæpu ári síðan.
Kirk, sem er 46 ára, átti í ástarsambandi við töluvert yngri leikmann liðsins og var hann fyrst settur til hliðar og svo leystur frá störfum eftir að innanbúðar rannsókn Leicester lauk.
Skotinn á ennþá í ástarsambandi við leikmanninn og býr með henni en hefur ekki haft erindi sem erfiði í starfsumsóknum sínum undanfarið ár.
„Ég hef sótt um hvert einasta lausa starf í A og B-deildinni frá því ég missti starf mitt, fyrir utan hjá Arsenal og Manchester City. Ég fékk ekki eitt einasta viðtal.
Ég olli sjálfum mér vonbrigðum með því sem átti sér stað hjá Leicester. Ég skil hvers vegna félög vilja ekkert með mig hafa og skil hvers vegna fólk kemst í uppnám.
En ef við skoðum þetta í stóra samhenginu þá hef ég ekki framið alvarlegan glæp. Ég hef ekki setið í fangelsi en mér líður eins og ég hafi setið í fangelsi,“ sagði Kirk í samtali við breska ríkisútvarpið.