Sjö hafa tryggt farseðilinn á HM 2026

Íran fagnar sætinu á HM 2026 með flugeldum.
Íran fagnar sætinu á HM 2026 með flugeldum. AFP

Alls hafa sjö þjóðir af 48 tryggt farseðilinn á HM 2026 í knattspyrnu karla sem fer fram í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó þarnæsta sumar.

Í nótt urðu ríkjandi heimsmeistarar Argentínu sjöunda þjóðin til þess að tryggja sæti sitt með öruggum sigri á Brasilíu í undankeppni Suður-Ameríku.

Í gærkvöldi varð Íran sjötta þjóðin sem tryggir sæti sitt. Liðið gerði jafntefli við Úsbekistan, 2:2, á heimavelli í undankeppni Asíu.

Íran er með 20 stig í A-riðli undankeppni Asíu og Úsbekistan er í öðru sæti með 17 stig, mjög nálægt því að komast á sitt fyrsta heimsmeistaramót.

Áður höfðu Nýja-Sjáland og Japan tryggt sér sæti í gegnum undankeppni Eyjaálfu og Asíu en gestgjafarnir þrír eru vitanlega sömuleiðis með tryggð sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert