Spænski knattspyrnumaðurinn Raúl Asencio, varnarmaður Real Madríd, hefur skrifað undir nýjan samning sem gildir til næstu fjögurra ára, út tímabilið 2028-29.
Asencio, sem er 22 ára, hefur óvænt verið í stóru hlutverki hjá Real Madríd á tímabilinu vegna tíðra meiðsla varnarmanna liðsins og spilað 30 leiki í öllum keppnum.
Hann var á dögunum valinn í spænska landsliðið í fyrsta sinn en lék þó ekki í nýafstöðnum landsleikjaglugga.
Nýi samningurinn inniheldur 100 milljóna evra riftunarákvæði, sem jafngildir 14,3 milljörðum íslenskra króna.