Unai Emery, knattspyrnustjóri Aston Villa, er ekki af baki dottinn þrátt fyrir að lið hans hafi tapað 3:1 fyrir París SG í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í síðustu viku.
Sá leikur fór fram í París og fer sá síðari fram á Villa Park í Birmingham klukkan 19 í kvöld.
„Við verðum að stjórna leiknum bæði tilfinningalega og taktískt. Leikmennirnir verða að hafa trú á því að þeir geti komið til baka.
Ég hef reynslu af endurkomum, bæði jákvæða og neikvæða. En þetta er eitthvað öðruvísi. Við viljum skrá okkur á spjöld sögunnar hjá Aston Villa,“ sagði Emery á fréttamannafundi í gær.