Niko Kovac, knattspyrnustjóri Borussia Dortmund, hefur ekki gefið upp vonina um að liðið komist áfram í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu þrátt fyrir að hafa tapað fyrri leik sínum í átta liða úrslitum 4:0 gegn Barcelona.
Síðari leikurinn fer fram í Dortmund klukkan 19 í kvöld.
„Við áttum okkur á stöðunni. Við viljum sýna algjörlega nýtt andlit samanborið við það sem við sýndum í fyrri leiknum og vinna leikinn. Kraftaverkin gerast öllum stundum en við vitum líka að Barcelona hefur ekki tapað leik á þessu ári.
Við verðum að spila af fullum krafti frá fyrstu mínútu og fá stuðningsmennina til þess að styðja við bakið á okkur. Við munum einungis vinna okkur inn meðbyr með viljanum til að hlaupa, frammistöðu og ástríðu,“ sagði Kovac í samtali við heimasíðu knattspyrnusambands Evrópu.