Victor Montagliani, forseti knattspyrnusambands Norður- og Mið-Ameríku, hefur gagnrýnt tillögu knattspyrnusambands Suður-Ameríku um að fjölga þátttökuþjóðum á heimsmeistaramóti karla í 64.
HM 2026 í Bandaríkjunum, Mexíkó og Kanada verður fyrsta mótið þar sem 48 þjóðir munu taka þátt en tillaga suðurameríska sambandsins lýtur að því að þjóðunum yrði fjölgað í 64 strax á HM 2030 sem mun fara fram á Spáni, í Marokkó og Portúgal eftir upphafsleiki í Argentínu, Paragvæ og Úrúgvæ.
„Ég hef ekki trú á því að það að fjölga HM karla í 64 lið sé rétta skrefið að taka fyrir mótið sjálft og knattspyrnuheiminn, allt frá landsliðum til keppna félagsliða, deilda og leikmanna.
Við erum ekki einu sinni byrjuð á nýja 48 liða heimsmeistaramótinu þannig að persónulega finnst mér að möguleikinn á 64 liðum ætti ekki einu sinni að vera á borðinu,“ sagði Montagliani í samtali við ESPN.
Aleksander Ceferin, forseti knattspyrnusambands Evrópu, og knattspyrnusamband Asíu hafa sömuleiðis mótmælt tillögu um enn frekari fjölgun liða á HM karla.