Diant Ramaj, markvörður karlaliðs FC Köbenhavn í knattspyrnu, sætir nú rannsókn lögreglu eftir að hafa skallað Thomas Mikkelsen, varamarkvörð Bröndby, eftir leik liðanna í dönsku úrvalsdeildinni á sunnudag.
Upp úr sauð undir lokin eftir gífurlega dramatík þar sem Bröndby skoraði sigurmark í uppbótartíma og Patrick Pentz, markvörður Bröndby, varði vítaspyrnu frá Mohamed Elyounoussi nokkrum mínútum síðar.
Ramaj og Mikkelsen fengu báðir beint rautt spjald eftir leikinn og Pentz fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt fyrir að ögra stuðningsmönnum FC Köbenhavn.
Danski knattspyrnumiðillinn Bold greinir frá því að Ramaj, sem er 23 ára Þjóðverji, hafi verið tilkynntur til lögreglu en að lögreglan í Kaupmannahöfn vilji ekki tjá sig neitt um málið.