Var á ströndinni fyrir nokkrum mánuðum

Wojciech Szczesny á fréttamannafundi í gær.
Wojciech Szczesny á fréttamannafundi í gær. AFP/Ina Fassbender

Pólski knattspyrnumaðurinn Wojciech Szczesny, markvörður Barcelona, segir margt hafa breyst hjá sér á örfáum mánuðum eftir að hann lagði hanskana á hilluna að síðasta tímabili loknu.

Szczesny, sem er 34 ára, lét staðar numið eftir sjö ára dvöl hjá Juventus síðastliðið sumar. Aðeins rúmum mánuði síðar sneri hann hins vegar aftur þegar Barcelona samdi við hann í byrjun október.

Kom það til vegna alvarlegra meiðsla aðalmarkvarðarins Marc-André ter Stegen. Fyrst um sinn var Inaki Pena í markinu í fjarveru ter Stegen en Szczesny vann sér inn byrjunarliðssæti í byrjun þessa árs og hefur ekki litið til baka síðan.

„Mér finnst gaman að vinna. Ég var á ströndinni fyrir nokkrum mánuðum og vildi í raun ekki spila knattspyrnu. Nú fæ ég að spila með því sem mér finnst vera besta lið Evrópu,“ sagði Pólverjinn á fréttamannafundi í gær.

Barcelona hefur ekki tapað leik með hann í markinu og heimsækir Borussia Dortmund í síðari leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Börsungar unnu fyrri leikinn á heimavelli 4:0.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert