Inter í úrslit eftir ólýsanlegan fótboltaleik

Liðsfélagar Hakan Calhanoglu fagna marki hans í kvöld.
Liðsfélagar Hakan Calhanoglu fagna marki hans í kvöld. AFP/Marco Bertorello

Inter Mílanó tryggði sér í kvöld sæti í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu karla með því að leggja Barcelona að velli, 4:3, eftir framlengingu í hreint ótrúlegum síðari leik liðanna í undanúrslitum í Mílanó.

Fyrri leiknum lauk með 3:3 jafntefli og Inter vann því einvígið samanlagt 7:6. Undanúrslitaleikirnir tveir voru báðir einhver hin mesta skemmtun sem boðið hefur verið upp á hin síðustu ár.

Eftir mjög rólega byrjun fór allt af stað þegar Lamine Yamal átti loks fyrsta skot leiksins eftir stundarfjórðung. Það fór beint á Yann Sommer sem greip boltann.

Inter vaknaði þá til lífsins og komst nokkrum sinnum í góðar stöður en vann ekki nægilega vel úr þeim. Á 21. mínútu átti Nicolo Barella góða tilraun hægra megin úr vítateignum en skotið fór beint á Wojciech Szczesny, sem átti í smá vandræðum en greip boltann í annarri tilraun.

Örfáum andartökum síðar vann Federico Dimarco boltann af Frenkie de Jong á vallarhelmingi Barcelona, sendi Denzel Dumfries aleinan í gegn, hann var með Lautaro Martínez sér við hlið og renndi boltanum á Argentínumanninn sem skoraði í autt markið.

Staðan orðin 1:0 og samanlagt 4:3.

Sjö mínútum síðar, á 28. mínútu, gerði Dani Olmo sig líklegan hægra megin í vítateig Inter eftir snögga sókn en var of lengi að athafna sig og skaut í varnarmann þaðan sem boltinn fór aftur fyrir endamörk.

Sex mínútum síðar átti Eric García góða fyrirgjöf af hægri kanti á Ferran Torres sem var aleinn á fjærstönginni en slakt skot hans af örstuttu færi fór af Raphinha samherja Torres og framhjá.

Inter náði tveggja marka forystu

Stuttu eftir það komst Yamal í mjög gott færi hægra megin í vítateignum eftir snarpa sókn en hægri fótar skot hans undir pressu frá Alessandro Bastoni fór framhjá markinu.

Þá var röðin aftur komin að Inter. Á 37. mínútu gerði Henrikh Mkhitaryan sig líklegan með laglegu skoti á lofti fyrir utan vítateig en það fór rétt framhjá markinu.

Fjórum mínútum síðar datt boltinn fyrir Hakan Calhanoglu hægra megin í vítateignum í kjölfar langs innkasts frá Denzel Dumfries en viðstöðulaust skot Calhanoglu var slakt og fór framhjá nærstönginni.

Undir lok fyrri hálfleiks dró til tíðinda þegar Pau Cubarsí felldi Martínez innan vítateigs. Upphaflega var ekkert dæmt þar sem Cubarsí virtist ná fyrst til boltans.

Skoðun dómarans Szymon Marciniak í VAR-skjánum leiddi hins vegar í ljós að Cubarsí fór fyrst í Martínez og vítaspyrna því dæmd.

Úr henni skoraði Calhanoglu af gífurlegu öryggi, Szczesny fór í vitlaust, og staðan orðin 2:0 og 5:3 samanlagt.

Þannig stóðu leikar í leikhléi og því mikið verk að vinna fyrir Börsunga í síðari hálfleik.

Börsungar fljótir að jafna metin

Gestirnir voru sannarlega vandanum vaxnir en þeir minnkuðu muninn strax á 54. mínútu. Gerard Martín átti þá frábæra fyrirgjöf vinstra megin úr vítateignum þar sem Eric García kom aðvífandi hægra megin, átti frábært viðstöðulaust innanfótar skot á lofti sem fór upp í samskeytin.

Þremur mínútum síðar fékk García hreint ótrúlegt færi til þess að skora annað mark sitt og Barcelona. Börsungar geystust þá í sókn eftir hornspyrnu Inter, Martín renndi boltanum þvert fyrir markið á García sem tók skotið af markteig fyrir því sem virtist vera opið mark en Sommer varði á einhvern ótrúlegan hátt.

Þremur mínútum eftir það jafnaði Barcelona hins vegar metin í 2:2 og einvígið um leið í 5:5. Títtnefndur Martín átti þá einu sinni enn stórglæsilega fyrirgjöf af vinstri kantinum, Olmo var einn á auðum sjó hægra megin við markteiginn og skallaði boltann laglega í netið.

Francesco Acerbi og Ferran Torres eigast við í kvöld.
Francesco Acerbi og Ferran Torres eigast við í kvöld. AFP/Pieri Cruciatti

Á milli markanna tveggja hjá Barcelona átti Barella gott skot rétt utan vítateigs sem Szczesny varði vel til hliðar og aftur fyrir.

Annars var Inter lítið með boltann í síðari hálfleik og Barcelona réði lögum og lofum. Ekki gekk jafn vel að opna vörn Inter og komst Yamal upp á sitt einsdæmi næst því að koma gestunum yfir þegar 13 mínútur voru til leiksloka.

Hann dansaði þá með boltann umkringdur varnarmönnum Inter, náði góðu skoti úr D-boganum en Sommer gerði vel í að verja til hliðar og aftur fyrir endamörk.

Lygilegar lokamínútur

Þremur mínútum fyrir leikslok fullkomnaði Raphinha endurkomu Barcelona. Gestirnir unnu þá boltann á vallarhelmingi Inter, Pedri kom boltanum á Raphinha sem var með pláss vinstra megin í vítateignum, þrumaði að marki en beint á Sommer, boltinn barst hins vegar aftur til Raphinha sem hamraði hann með hægri fæti niður í bláhornið fjær, 2-3 og samanlagt 5:6.

Á þriðju mínútu uppbótartíma átti Yamal frábæra tilraun rétt utan vítateigs hægra megin til þess að gera endanlega út um leikinn fyrir Barcelona en skotið small í nærstönginni. Það átti eftir að reynast dýrt.

Inter geystist nefnilega í sókn hinum megin, sending Marcus Thuram inn fyrir á Dumfries virtist vera að misheppnast en Hollendingurinn náði boltanum með herkjum, renndi honum þvert fyrir á nærstöngina þar sem hinn 37 ára gamli og örvfætti Francesco Acerbi var mættur og skoraði með viðstöðulausu hægri fótar skoti upp í þaknetið nær.

Staðan því orðin 3:3 og samanlagt 6:6. Fjörinu var þó ekki lokið því Yamal slapp einn í gegn undir blálokin en undir pressu var hann í litlu jafnvægi, tók táarskot en það fór beint á Sommer sem varði með fótunum.

Stuttu síðar var flautað til leiksloka í venjulegum leiktíma og því þurfti að framlengja.

Varamaðurinn reyndist hetjan

Eftir rólega byrjun á framlengingunni komst Inter í 4:3 og samanlagt 7:6 þegar varamaðurinn Davide Frattesi skoraði laglegt mark eftir glæsilegan undirbúning Thurams á 99. mínútu.

Hann hristi þá tvo varnarmenn Barcelona af sér, renndi boltanum á varamanninn Mehdi Taremi sem lagði hann út á Frattesi sem skoraði með hnitmiðuðu vinstri fótar skoti hægra megin úr teignum sem fór niður í bláhornið fjær.

Inter var með eins marks forystu þegar fyrri hálfleikur framlengingarinnar var á enda. Síðari hálfleikur hennar hófst með látum.

Yamal náði fyrirgjöf úr þröngri stöðu hægra megin í vítateignum, táaði boltann einhvern veginn fyrir á varamanninn Robert Lewandowski sem náði skalla af örstuttu færi fyrir opnu marki eftir að Sommer missti af boltanum en þurfti að teygja sig í hann og skallinn fór yfir markið.

Hinum megin fékk Frattesi svo annað mjög gott færi þegar boltinn barst til hans hægra megin í vítateignum. Frattesi náði góðu vinstri fótar skoti sem stefndi niður í fjærhornið en Szczesny varði mjög vel aftur fyrir.

Fimm mínútum síðar átti Raphinha stórglæsilega sendingu inn fyrir á Yamal sem var kominn í sína eftirlætisstöðu hægra megin í vítateignum, tók vinstri fótar skot sem stefndi í fjærhornið en Sommer varð stórglæsilega aftur fyrir.

Yamal fékk annað færi stuttu síðar en fast hægri fótar skot hans úr vítateignum fór beint á Sommer, boltinn skoppaði til Lewandowski sem var ekki í neinu jafnvægi og skalli hans fór hátt yfir markið.

Börsungar sköpuðu sér ekki fleiri færi og þar með var það Inter sem fór með lygilegan sigur af hólmi.

Inter Mílanó 4:3 Barcelona opna loka
120. mín. Það verða að minnsta kosti tvær mínútur í uppbótartíma. Fáum við dramatík eina ferðina enn?
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert