Ítalski knattspyrnumaðurinn Francesco Acerbi, miðvörður Inter Mílanó, hefur upplifað tímana tvenna á ferli sínum en hann skoraði mikilvægt jöfnunarmark í ótrúlegum 4:3-sigri Inter á Barcelona í gærkvöldi.
Árið 2013 greindist Acerbi í tvígang með æxli í eista en sigraðist á meininu í bæði skiptin. Heldur hann því fram að að greiningin hafi bjargað sér.
„Ef ég hefði ekki veikst hefði ég örugglega spilað í B-deildinni þegar ég var 29 ára gamall og ég væri pottþétt ekki að spila í dag,“ sagði hann í samtali við ítalska miðilinn L’Ultimo Uomo.
Acerbi er 37 ára gamall og í viðtali við La Repubblica útskýrði hann betur hvernig eistnakrabbameinið hafi í raun bjargað lífi Acerbis:
„Eftir að faðir minn lést fór ég alveg á botninn. Ég var í Mílanó og ekkert veitti mér hvatningu lengur. Ég vissi ekki hvernig ég ætti að fara að því að spila áfram.
Ég byrjaði að drekka, ég drakk allt sem ég kom höndum mínum á. Krabbameinið bjargaði mér. Ég hafði þá eitthvað til að berjast fyrir, einhverja hindrun til að yfirstíga.
Ég hætti að vera hræddur fyrir sex árum. Ég spurði sjálfan mig: „Hvað gerir þú ef meinið kemur aftur?“ Ég svaraði: „Ég vil berjast gegn því aftur“.“