París SG í úrslit eftir annan sigur á Arsenal

Achraf Hakimi og Fabián Ruiz fagna marki þess síðarnefnda í …
Achraf Hakimi og Fabián Ruiz fagna marki þess síðarnefnda í kvöld. AFP/Thomas Samson

París SG hafði betur gegn Arsenal, 2:1, í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu karla í París í kvöld og tryggði sér þar með sæti í úrslitaleiknum.

PSG vann fyrri leikinn í Lundúnum 1:0 og einvígið þar með samanlagt 3:1. PSG mætir Inter Mílanó í úrslitaleiknum í München 31. maí.

Það voru samt gestirnir sem byrjuðu mun betur í París í kvöld. Strax á þriðju mínútu leiksins átti Declan Rice fínan skalla að marki París SG eftir sendingu frá Jurrien Timber en Gianluigi Donnarumma varði vel frá honum. Aðeins einni mínútu síðar varði Donnarumma aftur mjög vel en að þessu sinni var það frá Gabriel Martinelli.

Á 8. mínútu leiksins fékk Martin Odegaard boltann rétt fyrir utan teiginn eftir langt innkast Thomas Partley og náði góðu skoti en aftur var það Donnarumma sem kom veg fyrir það að Arsenal kæmist yfir í leiknum með stórkostlegri markvörslu.

Það var ekki fyrr en á 17. mínútu leiksins að heimamenn náðu góðri sókn en þá munaði litlu að þeir kæmust yfir þegar Khvicha Kvaratskhelia átti skot í stöngina en eftir þessa sókn vöknuðu leikmenn París SG til lífsins og byrjuðu að bíta frá sér. Á 23. mínútu átti Saliba slæma sendingu á miðjum vellinum og Bradley Barcola náði boltanum og brunaði upp völlinn og átti fína sendingu á Désiré Doué sem náði skoti á markið en David Raya verði vel frá honum.

Á 27. mínútu leiksins kom svo fyrsta mark leiksins en þá braut Declan Rice klaufalega af sér á miðjum vallarhelmingi Arsenal og upp úr þessari aukaspyrnu sem dæmd var á Rice kom markið. Marquinhos tók aukaspyrnuna og setti boltann inn á teiginn en þar náði Thomas Partley að skalla boltanum frá markinu en boltinn fór beint á Fabian Ruiz sem tók eina gabbhreyfingu og negldi boltanum í hægra hornið. Virkilega smekklega gert hjá Ruiz en boltinn virtist samt aðeins koma við Saliba á leiðinni í netið.

Stuttu síðar munaði litlu að Barcola kæmi heimamönnum í 2:0 en þá átti Barcola fínt skot að marki Arsenal en Raya varði vel frá honum. Staðan í hálfleik var 1:0 fyrir París SG og ljóst að Arsenal þyrfti að minnsta kosti tvö mörk í seinni hálfleik til að koma þessum leik í framlengingu.

Seinni hálfleikurinn byrjaði frekar rólega og það var alveg ljóst að heimamenn ætluðu fyrst og fremst að þétta raðirnir og sigla þessu heim. Þeir voru þó alltaf hættulegir í sínum skyndisóknum og úr einni slíkri á 53. mínútu leiksins var Désiré Doué nálægt því að skora en skot hans fór rétt framhjá.

Á 69. mínútu leiksins fékk París SG vítaspyrnu en þá fékk Felix Zqayer, dómari leiksins, meldingu í eyrað þess efnis að kíkja í skjáinn og eftir að hafa horft á atvikið þar ákvað hann að dæma hendi á Lewis-Skelly. Réttilætinu var kannski fullnægt þegar David Raya varði slaka spyrnu frá Vitinha því að þessi dómur var ansi vafasamur að mínu mati.

En aðeins þremur mínútum síðar voru aftur á móti heimamenn komnir í 2:0 en þá skoraði Achraf Hakami virkilega gott mark eftir sendingu frá Ousmane Dembélé sem var nýkominn inn á sem varamaður.

Staðan var þó ekki lengi þannig því Arsenal minnkaði muninn strax í næstu sókn en þá fékk hann góða sendingu frá Leandro Trossard og átti skot að marki París SG en skotið fór í varnarmann en Saka fékk boltann aftur og renndi boltanum í netið. Staðan því 2:1 fyrir París SG og samanlegt í einvíginu 3:1 fyrir heimamenn.

Það munaði ansi litlu að Saka næði svo að jafna metin á 79. mínútu en þá fékk hann dauðafæri en skot hans fór hátt yfir mark París SG. Arsenal hélt áfram að sækja eftir þetta en náðu ekki að koma sér í nægilega góð færi og því urðu lokatölur leiksins 2:1 fyrir París SG og því vann París SG einvígið samanlegt 3:1.

Það verða því París SG og Inter Milanó sem spila til úrslita í Meistaradeild Evrópu en leikur liðanna fer fram laugardaginn 31. maí á Allianz Arena í Munchen í Þýskalandi.

París SG 2:1 Arsenal opna loka
90. mín. Mikel Merino (Arsenal) á skalla sem fer framhjá +2 - Ben White með sendingu fyrir en skalli Merino fer framhjá.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka