Luis Enrique, knattspyrnustjóri Parísar SG, kveðst ekki sammála fullyrðingu Mikel Arteta, knattspyrnustjóra Arsenal, um að Skytturnar hafi verið betri aðilinn í undanúrslitaeinvígi liðanna í Meistaradeild Evrópu.
„Mér fannst það, sérstaklega yfir 160 mínútur. Ég fullyrði það og þeir líka því PSG bekkurinn sagði það við mig eftir leikinn.
Ef þú greinir leikina tvo þá sérðu hver var maður leiksins í báðum leikjunum; markvörðurinn þeirra,“ sagði Arteta við fréttamenn eftir leikinn.
Þegar þessi ummæli voru borin undir Enrique á fréttamannafundi hans eftir leikinn sagði hann:
„Ég er fyllilega ósammála. Mikel Arteta er kær vinur en ég er með öllu ósammála. Mér fannst þeir spila skynsamlega í dag en yfir leikina tvo skoruðum við fleiri mörk en þeir og það er það mikilvægasta í fótbolta. Við eigum skilið að vera í úrslitum.“