Tottenham flaug í úrslitaleikinn

Pedro Porro fagnar ótrúlegu marki sínu í kvöld.
Pedro Porro fagnar ótrúlegu marki sínu í kvöld. AFP/Stian Lysberg Solum

Tottenham Hotspur gerði góða ferð til Noregs og lagði þar Bodö/Glimt að velli, 2:0, í síðari leik liðanna í undanúrslitum Evrópudeildar karla í fótbolta. Tottenham fer því í úrslitaleikinn þar sem liðið mætir Manchester United.

Tottenham vann fyrri leikinn í Lundúnum 3:1 og einvígið því samanlagt 5:1.

Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Dominic Solanke Tottenham í forystu eftir rúmlega klukkutíma leik.

Hann skoraði þá af stuttu færi eftir að Cristian Romero hafði skallað boltann á Solanke í kjölfar hornspyrnu.

Sex mínútum síðar, á 69. mínútu, innsiglaði Pedro Porro sigur gestanna með því sem hlýtur að hafa verið fyrirgjöf, langt utan af hægri kantinum, en endaði á því að fara í sveig yfir Nikita Haikin í marki Bodö/Glimt og í stöngina og inn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka