Logi á leið til Tyrklands

Logi Tómasson með boltann í leik íslenska landsliðsins gegn því …
Logi Tómasson með boltann í leik íslenska landsliðsins gegn því tyrkneska. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Logi Tómasson, landsliðsmaður í knattspyrnu, mun halda til Tyrklands í sumar eftir að norska félagið Strömsgodset samþykkti 126,4 milljóna króna tilboð í hann.

Nettavisen greinir frá því að Logi muni gangast undir læknisskoðun hjá nýju félagi sínu á næstu vikum og yfirgefa Strömsgodset þegar félagaskiptaglugginn opnar í sumar.

Miðillinn gefur ekki upp hvaða félag er um að ræða en það gerir TV2 hins vegar. Samsunspor er félagið sem um ræðir.

Liðið hefur átt góðu gengi að fagna á tímabilinu en Samsunspor er í fjórða sæti efstu deildar Tyrklands á eftir stórliðum Besiktas, Fenerbahce og Galatasaray.

Logi er 24 ára gamall vinstri bakvörður sem hefur leikið með Strömsgodset í norsku úrvalsdeildinni frá því um sumarið 2023. Hann á að baki níu A-landsleiki og hefur skorað eitt mark í þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert