Benoný missti af Wembley

Benoný Breki Andrésson kom til Stockport frá KR í vetur.
Benoný Breki Andrésson kom til Stockport frá KR í vetur. Ljósmynd/Stockport

Stockport County tapaði í kvöld fyrir Leyton Orient í vítaspyrnukeppni í undanúrslitum umspilsins um sæti í ensku B-deildinni í knattspyrnu.

Liðin skildu jöfn í fyrri leiknum í London um helgina, 2:2, og eftir venjulegan leiktíma í Stockport stóð 1:1.

Ekkert var skorað í framlengingu og Benoný Breki Andrésson sem kom inn á sem varamaður hjá Stockport í hálfleik hennar náði ekki að breyta neinu um það.

Því var gripið til vítaspyrnukeppni en þar brást tveimur leikmanna Stockport bogalistin.

Leyton Orient vann þar með vítakeppnina 4:1 og mætir annað hvort Charlton eða Wycombe Wanderers í úrslitaleik á Wembley um sæti í B-deildinni en þau gerðu markalaust jafntefli í fyrri leik sínum og mætast aftur annað kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert