Kaká, einn af heimsmeisturum Brasilíu frá árinu 2002, er kominn í þjálfarateymi karlalandsliðs þjóðar sinnar. Þar starfar hann með Carlo Ancelotti fráfarandi knattspyrnustjóra Real Madrid sem tekur við brasilíska liðinu 26. maí.
Kaká er 43 ára gamall og var kjörinn besti knattspyrnumaður heims árið 2007 þegar hann fékk Gullboltann, Ballon d'Or. Þá lék hann einmitt undir stjórn Ancelottis hjá AC Milan á Ítalíu en þeir unnu saman Meistaradeild Evrópu.
Þá var Kaká í leikmannahópi Real Madrid þegar Ancelotti tók fyrst við liðinu árið 2013 en fór fljótlega eftir það til AC Milan.
Kaká lagði skóna á hilluna árið 2017 og þjálfarastarfið í Brasilíu verður hans fyrsta frá þeim tíma. Á sínum tíma skoraði hann 29 mörk í 92 landsleikjum fyrir þjóð sína.