Lamine Yamal reyndist hetja Barcelona þegar hann skoraði og lagði upp mark í 2:0-sigri á Espanyol í grannaslag í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu í kvöld. Með sigrinum tryggði Barcelona sér spænska meistaratitilinn.
Börsungar eru á toppnum með sjö stiga forskot á Real Madríd þegar einungis tvær umferðir eru eftir og eru því meistarar í annað sinn á þremur árum.
Yamal, sem er enn einungis 17 ára gamall, kom Barcelona yfir á 53. mínútu með glæsilegu skoti.
Espanyol missti Leandro Cabrera af velli með rautt spjald tíu mínútum fyrir leikslok og Yamal lagði svo upp annað mark Börsunga fyrir Fermín López á sjöttu mínútu uppbótartíma.