Breska ríkisútvarpið rifjaði upp hrun Þróttar

Björgólfur Takefusa í leik með Þrótti sumarið 2003 þegar hann …
Björgólfur Takefusa í leik með Þrótti sumarið 2003 þegar hann var markakóngur og liðið féll. Kristinn Ingvarsson

Í umfjöllun um hrun Ajax í hollensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla á yfirstandandi tímabili rifjaði breska ríkisútvarpið óvænt upp ótrúlegt hrun Þróttar úr Reykjavík í efstu deild karla árið 2003.

Ekki er langt síðan Ajax var með níu stiga forskot á toppi deildarinnar en eftir afleitt gengi að undanförnu er liðið skyndilega í öðru sæti, einu stigi á eftir toppliði PSV Eindhoven þegar einungis ein umferð er óleikin.

„Þetta gæti verið verra fyrir Ajax. Íslenska efstu deildar liðið Þróttur kom sér í fréttirnar árið 2003 þegar liðið var á toppnum þegar tímabilið var hálfnað (níu leikir) en endaði á því að falla,“ sagði í umfjöllun breska ríkisútvarpsins.

Tilefnið í umfjölluninni, þar sem fjallað var um jafntefli gegn Groningen á miðvikudagskvöld, var að týnd voru til önnur fræg dæmi um að topplið glutri niður forskoti.

Á umræddu tímabili árið 2003 unnu Þróttarar sex af níu leikjum sínum í fyrri umferð úrvalsdeildarinnar og voru á toppnum með 18 stig að henni lokinni, tveimur stigum á undan Fylki og tíu stigum fyrir ofan KA og Fram sem sátu á botninum með 8 stig.

En Þróttarar, með tvo markahæstu menn deildarinnar í sínu liði, Björgólf Takefusa og Sören Hermansen, fengu aðeins fjögur stig í seinni umferðinni og féllu á 22 stigum, jafnmörgum og KA en lakari markatölu og stigi á eftir Grindavík og Fram. Valur endaði á botninum með 20 stig og féll ásamt Þrótti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert